Næsthlýjasti þorri í Reykjavík

Nú er þorri liðinn og góa tekin við. Hann reyndist sá næsthlýjasti sem við höfum upplýsingar um í Reykjavík. Topptaflan (og botninn) er svona (seinni aukastafur er aðeins hafður með í samkeppnisanda - en er lítt raunverulegur):

röðárþorri °C
119654,39
220173,57
319323,47
420063,32
519673,29
619423,20
720132,88
819262,74
919642,64
1020112,53
   
1391969-3,54
1401910-3,58
1411920-4,10
1421894-4,13
1431881-6,36

Listinn nær aftur til 1872 - en þó er rétt að geta þess að þrjá þorra (1904 til 1906) vantar vegna þess að daglegar hitamælingar þau ár eru ekki enn í stafrænum gagnagrunni. 

Við megum taka eftir því að á topptíu má sjá þrjá mánuði á núlíðandi áratug. Fyrir norðan er staðan svipuð - nema að dagleg gögn ná aðeins aftur til 1936. Á Akureyri var talsvert hlýrra á þorra 1965 heldur en nú - rétt eins og í Reykjavík. 

Við skulum líka líta á mynd.

Meðalhiti á þorra í Reykjavík 1871 til 2017

Hér sjáum við vel að kaldur þorri hefur ekki komið síðan 2002 (þótt ýmsum þætti kalt í fyrra), en þorrinn 2002 var merkilegur fyrir þær sakir að hann var almennt veðragóður þó kaldur væri - að slepptu einu mjög slæmu norðankasti. 

Það er líka dálítið óvenjulegt (miðað við ýmsar aðrar ámóta myndir) að hlýjasta „þorrasyrpan“ er í blálokin á hlýskeiðinu mikla á síðustu öld - að slepptum þorra 1966 eru þorramánuðir áranna 1963 til 1967 hlýir eða mjög hlýir. 

Úrkoma hefur oft verið meiri á þorra í Reykjavík heldur en nú, síðast 2012 og í hitteðfyrra (2015) var hún nærri því eins mikil og nú. 

Svo er spurning með framhaldið. Það er ekkert samband á milli hita á þorra og góu. Þessir tveir mánuðir ganga stundum saman en jafnoft verður þeim sundurorða. 

Þeir sem vilja rifja eitthvað upp um hlýja og kalda góumánuði geta litið á gamlan hungurdiskapistil frá því 2013. Og um þorraþrælinn er einnig gamall pistill á hungurdiskum. Sömuleiðis ritaði ritstjórinn pistil á vef Veðurstofunnar um þorraþrælinn 1866 ( og birtingu ljóðsins „Nú er frost á Fróni“). Skyldi Kristján fjallaskáld hafa ort kvæðið fræga á þorraþræl 1865 - en það er kaldasti þorraþræll allra tíma - og „átt það á lager“ til birtingar í Þjóðólfi 1866? - Þorraþrællinn 1866 var nefnilega hlýjasti dagur febrúarmánaðar það ár (þó kaldur væri). 


Af loftþrýstingi og hita

Það er ekkert beint samband á milli loftþrýstings og hita hér á landi. Við lítum á mynd þar sem sjá má ástandið í febrúarmánuði í Reykjavík. - Þessi pistill er nú býsnaþurr og varla fyrir nema fáa. 

w-blogg190217

Lárétti ásinn sýnir meðalþrýsting febrúarmánaðar, en sá lóðrétti hitann. Fylgnin er engin - en við drögum samt aumingjalega línu í gegnum ártalaskýið. Þeir sem vilja sjá ártölin betur líta á pdf-viðhengið. 

Við höfum samt á tilfinningunni að hitinn dreifist meira háþrýstimegin á myndinni heldur en í lágþrýstingnum - í febrúar sem á lægstan þrýstinginn (1990 - kross lengst til vinstri á myndinni) er hiti nærri meðallagi. Svo er það merkilegt að þeir febrúarmánuðir sem eru hlýjastir allra (1932 og 1965) eru jafnframt þeir þrýstihæstu. 

Febrúar í ár (2017) ætti að verða á þeim slóðum sem örin bendir. 

En förum nú upp í 500 hPa-flötinn - í rúmlega 5 km hæð.

w-blogg190217b

Við getum ekki teygt okkur eins langt aftur í tíma - förum samt aftur til 1921. Hér sýnir lárétti ásinn hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 m). Svo bregður við að greinilega er samband á milli hæðarinnar og hitans - fylgnistuðull er stærri en 0,5. 

Það má heita regla að hlýtt sé í háloftum sé 500 hPa-flöturinn hár. 

Samband á milli loftþrýstings og 500 hPa-hæðar er líka gott - en víkur þó út af. Hér má e.t.v. sjá að loftþrýstingur getur verið hár af tvennum ástæðum. Annað hvort er 500 hPa-flöturinn hár (og hlýtt í háloftum) - eða þá að köldu (og þungu) lofti hefur tekist að leggjast að í neðstu lögum (án „vitneskju“ háloftanna). 

Í febrúar 1932 og 1965 var mjög hlýtt í háloftunum yfir landinu - og þeirra hlýinda naut við jörð. Í febrúar 1947 var þrýstingur nærri því eins hár (sjá fyrri myndina) - en hæð 500 hPa-flatarins í rétt rúmu meðallagi (síðari mynd).

Líklegt er að í mestu hafísárum 19. aldar hafi 500 hPa-flöturinn stöku sinnum verið hár án þess að hlýindin næðu til jarðar - margir slíkir mánuðir myndu spilla sambandinu sem myndin sýnir. Ófullkomnar endurgreiningar (sem ná aftur fyrir 1880) benda helst á febrúar 1881 sem slíkan spillimánuð. 

En smámunasömum er bent á viðhengin - þar sjást ártöl mun betur. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 19. febrúar 2017

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5
  • Slide4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 19
  • Sl. sólarhring: 205
  • Sl. viku: 1643
  • Frá upphafi: 2349603

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 1489
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband