Fárviðrið 16. febrúar 1981

Vindhraði mældist enn meiri á Veðurstofutúni þann 16. febrúar 1981 heldur en í veðrinu tíu árum síðar og fjallað var um í síðasta fárviðrapistli. Veðrunum er stundum ruglað saman - eins og eðlilegt er. Fárviðrið 1981 er gjarnan kennt við Engihjalla í Kópavogi - þar varð mikið bílafok - en þar fuku reyndar líka bílar í veðrinu 1991. 

Lægðin 1981 var e.t.v. ekki alveg jafn öflug og sú sem uslann gerði 1991, en ekki munar miklu. Tjón varð gríðarlegt - þó minna en 1991. Annars er greinilegt af fréttum að mun færri voru tryggðir fyrir foktjóni 1981 heldur en tíu árum síðar og opinberar tjónatölur því lægri - tjónþolar hafa þurft að bera meira af sínum skaða sjálfir. Í veðrinu 1973 hafði bjargráðasjóður verið opnaður - enda sárafáir foktryggðir þá - hann var eftir fréttum að dæma galtómur og lokaður 1981. 

Veðrið 1981 var nánast sömu ættar og það sem gekk yfir tíu árum síðar - og sömu ættar og mannskaðaveðrið í febrúar árið áður (og fjallað var um á þessum vettvangi nýlega). Í öllum tilvikum kom djúp lægð að Suður-Grænlandi - dælir hún köldu lofti frá Kanada út á Atlantshaf á móts við bylgju af hlýju og röku lofti sem mætir á svæðið, upprunnin yfir hlýjum sjó Golfstraumsins. 

Sá var þó bragðmunur að landsynningur fyrri lægðarinnar var vægari heldur en 1991 - en útsynningur hennar aftur snarpari. Á fyrsta kortinu hér að neðan er verið að leggja á borð. Það sýnir stöðuna tveimur sólarhringum áður en veðrið var í hámarki.

Slide1

Hér vaða útsynningsél inn á landið vestanvert með snörpum vindi. Rétt sést í nýju lægðina suður af Nýfundnalandi. - Sígild staða. 

Slide2

Hér má sjá stöðuna í 500 hPa á sama tíma. Þykktin sýnd í lit. Helkalt heimskautaloftið streymir út yfir Atlantshaf - ekki ósvipað og 1991 og 1980. Aðeins mótar fyrir hlýju bylgjunni í neðra vinstra horni. 

Slide3

Sólarhring síðar er nýja lægðin farin að yggla sig. Enn er grimmur útsynningur vestanlands. - Fyrr um kvöldið náðist mynd af lægðinni.

Slide4

Sígildari gerast þær ekki. Við sjáum öll ógnareinkennin sem við áður höfum minnst á. Hlýja færibandið með sinni skörpu bakborðsbrún, þurru rifuna þar hjá, loðinn hausinn og útsynningséljaflókann á undan. - Myndin er tekin um kl. 21 um kvöldið, sólarhring áður en fárviðrið var í hámarki. 

Ritstjóri hungurdiska var ekki á vakt í þessu veðri - en fékk þó eina sérlega góða upplýsingapillu frá eldri samstarfsmanni Knúti Knudsen. Knútur var á vakt þessa nótt og sá þá að loftvog féll um 8 hPa á 3 klst í hánorðanátt á veðurskipinu C (sem almennt var kallað Charlie). Charlie var staðsett á 52 gráðum, 45 mínútum norðurbreiddar og 35 gráðum og 30 mínútum vesturlengdar - í þetta sinn í norðanáttinni undir skýjahausnum. Þetta leist Knúti ekki á - og fræddi ritstjórann um að ef hann sæi svona nokkuð ætti hann að vera sérlega vel á verði. 

Átta hPa þrýstifall á 3 klukkustundum er út af fyrir sig ekki einstaklega mikið (alltaf þó stormviðvörunar virði) - en á hlið - eða bakvið lægð á miklum hraða - eins og var í þessu tilviki kann ekki góðri lukku að stýra. Slík lægð er í foráttuvexti. 

Eins og var á þessum árum var ekki mikið gagn í tölvuspám þegar tekist var á við lægðir af þessu tagi. Byltingin mikla varð ekki fyrr en einu og hálfu ári síðar. Veðurskipin voru mikilvæg hjálpartæki við veðurspár á sínum tíma - ómetanleg reyndar. Skeyti frá Charlie voru reyndar ekki lesin í útvarp hér á landi, en nöfnin Alfa, Bravó, Indía og Líma kveikja hlýjar minningar í hjörtum eldri veðurnörda íslenskra. Svo týndu þau tölunni eitt af öðru. - Langlengst lifði M-skipið - sem ýmist var kallað Metro eða Mike og hélt sig í Noregshafi - en það er önnur saga.

Ritstjórinn var staddur í Borgarnesi þennan dag, 16. febrúar 1981. Minnisstætt er veðurhljóðið frá eggjum Hafnarfjalls - áður en veðrið skall á. Hann man það varla meira. Og um kvöldið fengu hviðurnar frá fjalliu að njóta sín - börðu húsið svo að ljósakrónur hristust í loftum og steinryk hrundi fram undan listum. Jafnaðarvindur var minni í Nesinu heldur en 1991, en hviðurnar mun hrikalegri. 

Slide7

Aftur náðist mynd af lægðinni um kl.21 að kvöldi þess 16. Hún hefur hér tekið á sig sígilda snúðsmynd. Sums staðar varð veðrið verst þegar vindur var að snúast úr suðaustri í suður - á jaðri þurru rifunnar - en annar staðar varð það verst í stungunni sunnan við lægðarmiðjuna - sem þarna er ekki enn komin að landinu. 

 Slide6

Endurgreining evrópureiknimiðstöðvarinnar nær þessu veðri allvel - betur heldur en veðrinu 1991. Hér má sjá stöðuna á miðnætti. Lægðin hér 946 hPa í miðju. Lægsti þrýstingur sem mældist á landinu var 946,2 hPa - á miðnætti á Galtarvita. Sé kortið tekið bókstaflega segir það þrýsting vera 951 hPa á Galtarvita á þessum tíma. - Kannski er lægðin sjónarmun of grunn í greiningunni - en ekki samt svo að við getum kvartað stórlega - eins og 1991. 

Slide8

Á Veðurstofutúni náði vindur fyrst fárviðrisstyrk um kl. 20:30 - eða um svipað leyti og gervihnattamyndin sýnir. - Hámarkið kom svo milli kl. 22:30 og 23:00 þegar 10-mínútna meðalvindur fór í 39,6 m/s. Þetta er allsendis ótrúleg tala í jafnmiklu þéttbýli og í Reykjavík. Svo vildi til að handlagnir voru á vakt á Veðurstofunni og tókst að líma viðbætur ofan á vindritið þannig að mælingin glataðist ekki. 

Veðurstofuhúsið öskraði í átökunum og rúður brotnuðu hlémegin í því. Mesta vindhviðan mældist 52,5 m/s. 

Tjónlistinn er langur - rétt að rifja hann upp - en ótalmargt vantar ef að líkum lætur.

Tveir piltar létust þegar þá tók út af bát sem strandað hafði við Eyjar. Nokkur meiðsl urðu á fólki víðs vegar um land. Heilu þökin tók af húsum, báta sleit upp í höfnum, skemmdir urðu á hafnarmannvirkjum, fólksbílar og langferðabílar fuku og miklir skaðar urðu af völdum lausra hluta svo sem timburs og járnplatna.

Þök, klæðningar og bílar fuku á höfuðborgarsvæðinu. Svo vildi til að mikil hálka var á bílastæðum og gríðarlegt tjón varð er bílar fuku til og rákust saman. Hluti af þaki Landsspítalahúss (fæðingardeildarinnar) fauk og þök fuku af nokkrum heilum fjölbýlishúsum. Þök fuku af tveimur viðbyggingum við Vífilsstaðaspítala og skemmdu bifreið. Þak fauk í heilu lagi af íbúðarhúsi á Seltjarnarnesi. Um 50 bílar skemmdust við Engihjalla í Kópavogi. Áætlunarbifreið fauk út af vegi við Blikastaði í Mosfellssveit. Nokkrar skemmdir urðu á Reykjavíkurflugvelli, þar eyðilagðist lítil flugvél og tjón varð á flugskýlum og öðrum byggingum. Mikill hluti af þaki KR-heimilisins fauk á haf út.

Miklar skemmdir urðu á flugskýli í Vestmannaeyjum er hluti þaks fauk og 40 rúður brotnuðu í flugstöðinni. Skemmdir urðu á allmörgum íbúðarhúsum í Grindavík, hvergi þó mikið, þak fauk þar af skemmu. Stór hluti þaks á nýju íþróttahúsi fauk í Keflavík sem og hluti þaks á Félagsbíói, járn tók af allmörgum húsum og rúður brotnuðu. Hálft þak fauk af fiskverkunarhúsi í Garðinum og af heilu fjölbýlishúsi í Njarðvíkum. Ytra byrði Flugleiðaþotu skemmdist nokkuð vegna áfoks. Þak fauk af svínahúsi í Krýsuvík, þak fauk af nýbyggingu Víðistaðaskóla og skemmdi bíla og fleira í nágrenninu, margir bílar ultu á bílastæðum í Hafnarfirði.

Helmingurinn af þaki Hlégarðs í Mosfellssveit fauk og olli miklum skemmdum á íþróttasvæðinu, allmikið tjón varð í Mosfellssveit, einkum í nýbyggingarhverfum. Tjón varð á flestum bæjum í Kjós, þakplötur eða þakhlutar fuku á Tindstöðum, Morastöðum, Eyjum og Hálsi. Hið af hlöðurisi fauk á Kiðafelli og brúargólf fauk af Botnsárbrú. Hafnargarður hvarf á Akranesi, þar kom mikil dæld í svartolíutank og járn og þakskífur fuku af mörgum húsum og rúður brotnuðu.

Mikið tjón varð í gróðurhúsahverfinu á Kleppjárnsreykjum, m.a. lögðust tvö hús alveg saman og nær öll hús stórskemmd. Í Fossatúni fauk hlaða alveg niður að jörðu og helmingur fjósþaks og hluti fjárhúsþaks auk þess sem margar rúður brotnuðu í íbúðarhúsinu, tjón varð á flestum bæjum í Bæjarsveit, rafmagns- og símastaurar brotnuðu fjölmargir. Hlaða lagðist saman á Vatnsenda í Skorradal, þak tók af húsum í Þverholtum á Mýrum, í Munaðarnesi fauk hluti þaks af íbúðarhúsi umsjónarmanns. Verulegar skemmdir urðu á Kvíum í Þverárhlíð og hlaða í Norðtungu skaddaðist illa. Í Síðumúla fauk hluti af þaki og þak af húsi í Reykholti, á Hvanneyri fauk bifreið. Í Borgarnesi fuku plötur af fáeinum húsum, þar á meðal af hálfu þaki leikskólans, skemmdir urðu á Borgarpakkhúsinu og sendiferðabifreið tókst á loft og lenti á öskubíl staðarins.

Á Tröð í Kolbeinsstaðahreppi fauk þak af stóru fjósi og þak af hlöðu í Hraunholtum, skemmdir urðu á nýjum húsum í Ásbrún og Miðgörðum. Hlaða og geymsluhús eyðilögðust í Hallkelsstaðahlíð, þak fauk af fjárhúsum. Í Kolviðarnesi brotnuðu rúður í íbúðarhúsinu og íbúarnir flýðu húsið, þar fauk einnig þak af hlöðu og fjósi og af fjárhúsum og hlöðu. Skemmdir urðu á þaki Laugagerðisskóla, þak tók af fjárhúsi og hlöðu í Akurholti, plötur fuku af nýlegu fjárhúsi í Hrútsholti, fjós og heyvagnar sködduðust. Þak fauk af fjárhúshlöðu á Rauðkollsstöðum og skemmdir urðu á fleiri bæjum í Eyjahreppi, m.a. Þverá, Dalsmynni og í Söðulsholti. Plötur fuku af íbúðarhúsi á Stóru-Þúfu og allmiklar skemmdir urðu á íbúðarhúsi á Lækjamótum, hluti af hlöðuþaki fauk í Eiðshúsum og í Borgarholti fauk af íbúðarhúsi og hlöðu. Þak tók af gamalli hlöðu á Neðri-Hóli í Staðarsveit.

Skreiðarskemma lagðist saman í Ólafsvík, miklar skemmdir urðu á íbúðarhúsi í Naustum í Eyrarsveit, þar fauk einnig hlaða nánast í heilu lagi. Járn fauk af nokkrum húsum í Grundarfirði og rúður brotnuðu, þar fauk nýr bíll yfir á næstu lóð og eyðilagðist. Í Stykkishólmi fauk þak af geymsluhúsi og skemmdi nærliggjandi hús, víðar fauk í Hólminum, talið að 20 hús hafi skaddast.

Staðarhólskirkja í Saurbæ fauk af grunni og lenti á félagsheimilinu víða varð tjón á bæjum í Dölum, mest á Svínhóli í Miðdölum, þar fauk þak af nýlegum fjárhúsum. Talið var að yfir 20 íbúðarhús í Dölum hafi orðið fyrir tjóni og 20 til 30 gripahús.

Í Bolungarvík fauk þak af frystihúsi á haf út og margar plötur af rækjuvinnslunni og tjón varð á fleiri húsum. Fjölmargir rafmagnsstaurar brotnuðu nærri Mjólkárvirkjun. Bátur slitnaði upp og sökk á Ísafirði, mannlaus flutningabíll fauk um koll í Hnífsdal. Þak fauk af íbúðarhúsi í Reykjanesi við Djúp, nokkrar skemmdir urðu á Kirkjubóli í Langadal, bát rak upp í Æðey. Bátar skemmdust í höfninni á Hólmavík og þar varð talsvert tjón vegna foks, sömuleiðis á Drangsnesi.

Bátar skemmdust á Hvammstanga og þar fauk helmingur þaks af sparisjóðnum og rúður brotnuðu í sjúkrahúsinu. Þak fauk í heilu lagi af fjárhúsi á Stað í Hrútafirði, þar varð einnig tjón á fleiri húsum, m.a. fór þak af gömlu íbúðarhúsi. Þak fór af íbúðarhúsi á Bjarghúsum í Vesturhópi og hálft þakið af íbúðarhúsi á Torfastöðum í Miðfirði. Mikið tjón varð í Austur-Húnavatnssýslu, plötur fuku og rúður brotnuðu á Blönduósi, vinnuskúr fauk og jeppi valt, þak fauk af gömlum fjárhúsum og hlöðu á Fremsta-Gili og í Hvammi í Langadal fauk þak af gamalli fjárhúshlöðu í heilu lagi, sumarhús fauk þar í nágrenninu og víða urðu minni skemmdir á bæjum.

Áætlunarbifreið fauk við Hafsteinsstaði í Skagafirði og sjúkrabíll í Tröllaskarði í Hegranesi, ökumaður þess bíls meiddist talsvert, að minnsta kosti fjórir aðrir bílar fuku af vegi í Skagafirði. Talsverðar skemmdir urðu á Sauðárkróki, m.a. á mjólkursamlaginu, frystihúsi og stálgrindarskemmum. Þök fuku af útihúsum á nokkrum bæjum í Skagafirði. Tveir búðargluggar brotnuðu á Siglufirði.

Talsvert tjón varð í Grímseyjarhöfn. Minniháttar tjón varð á Akureyri, en þó fuku stólar af öllum möstrum skíðalyftunnar í Hlíðarfjalli. Hluti fjárhúsþaks á Presthólum á Sléttu fauk og tvær kindur drápust, hluti fjárhúsþaks fauk einnig í Leirhöfn og skemmdir urðu í Klifshaga.

Fjárhús fuku á Kolmúla við Reyðarfjörð, einnig varð talsvert tjón í þorpinu og bílar fuku um koll og skemmdust.

Mikið tjón varð á gróðurhúsum í Árnessýslu, einna mest á Flúðum. Hluti af þaki íbúðarhúss á Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi fauk, á bænum Skyggni fór fjárhús í heilu lagi og fjós í heilu lagi á Skarði í Gnúpverjahreppi. Tólf tonna vörubifreið fauk út í Rangá á Hellu. Járn fauk af húsum í Næfurholti, Hólum og Svínhaga á Rangárvöllum og þak af stórri heyhlöðu í Gunnarsholti. Miklar skemmdir urðu á gróðurhúsum í Hveragerði og í Biskupstungum. Nokkuð foktjón varð í Þorlákshöfn.

Miklar rafmagnstruflanir urðu í flestum landshlutum og var sums staðar rafmagnslaust í þrjá sólarhringa. Dagblaðaútgáfa truflaðist af þessum sökum.


Bloggfærslur 28. september 2016

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 21
  • Sl. sólarhring: 140
  • Sl. viku: 1770
  • Frá upphafi: 2348648

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 1550
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband