Fárviðrið 3. febrúar 1991

Veðrið 3. febrúar 1991 er eitt hið versta sem yfir landið hefur gengið - á síðari áratugum alla vega - og efnislegt tjón meira en fyrr og síðar í einu veðri. Vindhraði á veðurstöðinni í Reykjavík hefur ekki náð fárviðrisstyrk síðan. 

Aðdragandinn var sígildur - mjög djúp og víðáttumikil lægð kom að Suður-Grænlandi. Hún dældi gríðarköldu lofti til suðausturs um Atlantshaf til móts við bylgju af hlýju lofti sem bar að úr suðri - afburðavel hitti í þetta stefnumót. Yfir Skandinavíu var mikil hæð - að þessu sinni sérlega öflug og kuldapollur yfir suðvestanverðri Evrópu hélt líka á móti þannig að Ísland lá í skotlínunni. 

Slide1

Hér má sjá greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar á hádegi 2. febrúar, daginn áður en veðrið skall á. Grænlandslægðin er að vinna sitt verk - og allrasyðst á kortinu er ný lægð komin inn á brautina. 

Slide2

Þetta kort sýnir stöðuna á miðnætti að kvöldi 2. febrúar. Hér má vel sjá ógnina frá kuldapollinum í vestri. Dekksti fjólublái liturinn sýnir hvar þykktin er minni en 4800 metrar - ekki svosem alveg óvenjulegt á þessum slóðum - en staðan samt harla ískyggileg. Mikill strengur (þéttar jafnhæðarlínur) liggur langt sunnan úr hafi beint norður yfir Ísland. 

Slide3

Þessi gervihnattamynd er frá því síðdegis þann 2. febrúar [móttökustöðin í Dundee]. Hér er illt í efni og sjá má öll helstu einkenni snardýpkandi lægða - bylgjuhaus, þurra rifu og éljagang á undan kerfinu. - En auk þess má hér sjá hinn helhvíta blett kuldapollsins - draugalegan að vanda - það þykir ískyggilegt þegar allt rennur svona saman í hvíta móðu - í óstöðugu lofti. Trúlega vanmetur reiknimiðstöðin kuldann á þessum slóðum. Einnig má sjá einkennilegar, en allgrófgerðar bylgjur í haus lægðarinnar - um þær hefur verið ritað í fræðigreinum eftir að svipað sást á mynd daginn áður en mjög frægt illviðri gekk yfir Bretlandseyjar 15. til 16. október 1987.

En tölvuspám gekk ekkert með þetta veður. Jafnvel nær hin annars ágæta interim-endurgreining evrópureiknimiðstöðvarinnar nær því ekki nógu vel. - Vonandi að núverandi líkan geri það - sem við vitum ekki.

En lítum samt á greininguna frá hádegi þann 3. 

Slide4

Í fljótu bragði virðist allt í lagi. Lægðin nokkurn veginn á réttum stað og ofsafengin að sjá - en þrýstingur í lægðarmiðju er hér 962 hPa. Mælingar sýndu hins vegar rétt rúmlega 940 hPa. Það munar 20 hPa! Langt í frá nógu gott. - En líkanið gaf síðan í og var síðdegis búið að ná um það bil réttri dýpt.

Slide5

Hér eru 949 hPa í miðju - sennilega ekki fjarri lagi - lægðin farin að grynnast. 

Slide6

Myndin er fengin úr safni móttökustöðvarinnar í Dundee á Skotlandi og er merkt kl. 13:55. Lægðarmiðjan er rétt úti af Vestfjörðum og „stingröst“ hennar þekur allt Vesturland. 

Á lista hungurdiska um illviðri á landsvísu trónir þetta veður á toppnum. Það er líka á toppnum þegar litið er á „landsþrýstispönn“ [mismun hæsta og lægsta þrýstinga á landinu á sama tíma]. Metvindhraði mældist á Stórhöfða í Vestmannaeyjum (meiri vindur hefur þó mælst á landinu síðar). Þrýstibreytingar voru líka með fádæmum miklar (ekki alveg þó met). - Mælikvarðar þessir eru þó ekki alveg hreinir sé litið til margra áratuga - vegna breytinga á stöðvakerfinu og breytinga á mælitækjum og mæliháttum. Höfum það alltaf í huga þegar horft er á metaskrár. 

Fyrir utan það að kerfið var óvenjuöflugt er má nefna að að stór hluti landsins varð bæði fyrir sunnanfárviðri (háloftaröst) sem og útsynningsstungu (lágröst), jafnvel náði landsynningslágröst sér á strik líka í upphafi veðursins. Alkunna er að á hverjum stað eru það gjarnan ein eða tvær tegundir veðra sem láta að sér kveða - þannig að lægðakerfi sem senda á okkur bæði landsynning og útsynning eru líkleg til mikillar útbreiðslu. - Illviðrið mikla sem gerði í febrúar 1980 og fjallað var um í pistli hungurdiska nýlega var aðallega útsynningsstunga og útbreiðsla þess mun minni en þess sem hér er fjallað um - þrátt fyrir gríðarlega veðurhörku á þeim stöðum sem fyrir því urðu.   

En lítum á vindritið frá Reykjavík.

Slide7

Þetta er teljari sem ritar hærri og hærri tölur á blað - en fellur í byrjunarstöðu eftir 10-mínútur. Blaðið og teljari hafa verið kvörðuð þannig að meðalvindhraði hverra tíu mínútna mælist - hér í hnútum. - Vegna þess að kvarðinn nær ekki „nema“ upp í 66 hnúta sprengja verstu veður kvarðann. Eftir að það hafði gerst svo um munaði tíu árum áður (1981) var einskonar skiptir settur í mælinn þannig að hægt var að setja hann í 5-mínútna talningu í miklum vindhraða - eins og sjá má var skipt um gír um kl.13:30 þennan dag. - Til að fá út 10-mínútna gildið þarf að leggja saman 5-mínútna talningarnar. 

Sá sem gerði það fékk út tölu sem varð að 32,9 m/s. Mesta hviða sem mældist á hviðumælinn við Veðurstofuna var 41,2 m/s. - Á flugvellinum fréttist hins vegar af meðalvindhraðanum 40,7 m/s - en sá mælir var í 17 metra hæð (að sögn). 

Á ritinu má sjá að landsynningurinn um morguninn hefur mest farið í um 60 hnúta (29,1 m/s) - síðan hefur aðeins dúrað - en rétt um kl. 13 skall stingröstin yfir úr suðsuðvestri. Fárviðrið stóð ekki mjög lengi - en stormur (meir en 20 m/s) var viðloðandi til kl. 17 eða svo. 

farvidrid0302-1991-a

Myndin sýnir annars vegar loftþrýsting á Keflavíkurflugvelli á 3-stunda fresti dagana 1. til 4. febrúar 1991 (blár ferill - vinstri kvarði), en hins vegar landsþrýstispönn sömu daga (rauður ferill - hægri kvarði). Þrýstispönnin er skilgreind sem mismunur hæsta og lægsta þrýstings á landinu á hverjum tíma. 

Fárviðrislægðin kemur vel fram - þrýstingurinn fór niður í 944,7 hPa á hádegi þann 3. og reis síðan um 30,7 hPa á þremur klukkustundum. Reyndar reis hann um 21 hPa á einni stund milli kl. 12 og 13. Þessar tölur eru með því allra hæsta sem sést hafa í lægðum á norðurslóðum. 

Spönnin sýnir vel landsynningsveðrið sem gerði aðfaranótt þess 2. - samfara undanfaralægðinni miklu. Hún fór þá mest upp í 27,7 hPa - það er býsnamikið - en verður samt hálf dvergvaxið miðað við töluna 49,8 hPa kl. 15 þann 3. sem er hæsta tala af þessu tagi sem vitað er um með vissu hér á landi.

farvidrid0302-1991-b

Græni ferillinn (hægri kvarði) sýnir þrýstispönnina aftur - en bláu og rauðu ferlarnir vindhraða á Stórhöfða í Vestmannaeyjum 1. til 4. febrúar. Blái ferillinn sýnir mesta 10-mínútna meðalvindhraða á 3 klst fresti, en sá rauði mestu vindhviðu. Í fyrra veðrinu ,þann 2., slær bláa ferlinum upp í fárviðrisstyrk, en kl.15 síðdegis þann 3. náði meðalvindurinn 56,6 m/s og hviða 61,8 m/s - en hviðan sprengdi raunar kvarða vindritans þannig að vel má vera að hún hafi verið enn meiri. 

Í veðuratburðaskrá ritstjóra hungurdiska á ekkert veður lengri tjónafærslu - hún fylgir hér á eftir - þótt fáir endist til að lesa. 

Raflínur slitnuðu víða. Miklar gróðurskemmdir urðu og malbik flettist af vegum. Rafmagnslaust varð um land allt.

Langbylgjumastur á Vatnsenda fauk og fjórir byggingarkranar fóru á hliðina í Reykjavík og grennd. Gríðarlegt tjón varð um allt höfuðborgarsvæðið og er tjónið metið á meir ein 1 milljarð króna á þávirði. Trjágróður fór víða illa og er talið að um 500 gömul tré hafi eyðilagst í görðum Reykjavíkurborgar (einkagarðar ekki taldir með). Nokkrir tugir manna leituðu aðstoðar á slysavarðstofunni og fjórir voru lagðir inn á sjúkrahús. Mikið tjón varð á Reykjavíkurflugvelli, þak fauk af afgreiðslubyggingu, ljósabúnaður skemmdist, nokkrar flugvélar losnuðu og skemmdust og klæðning losnaði á húsi.

Miklar skemmdir urðu á Landspítalanum, þar fauk mikil álklæðning af fæðingardeildarhúsinu og mikið af steinflísum fauk af gömlu aðalbyggingunni. Þakklæðning fauk einnig af Kleppsspítala. Mest eignatjón varð í Fellahverfi. Rúður brotnuðu í verslun í Austurveri og innréttingar brotnuðu. Þak losnaði á sundlaug Vesturbæjar. Í Kópavogi var ástandið verst í suðurhlíðunum og í Engihjalla, þar ultu þrír bílar í stæði og þak losnaði af skemmu. Bátar skemmdust við flotbryggju í Vesturbænum og í Fossvogi. Nokkrir byggingakranar fuku um koll. Þök fóru af nokkrum gömlum húsum í Bessastaðahreppi. Heyhlaða splundraðist í Þormóðsdal í Mosfellsbæ. Allt járn tók af einu íbúðarhúsi á Seltjarnarnesi og hluti af þaki á nýbyggðu verkstæðishúsi fauk. Skemmdir urðu á búnaði á skíðasvæðinu í Bláfjöllum.

Þriðji hluti af þaki bæjarskemmu í Keflavík fauk, járn fauk af sparisjóðshúsinu og af fjölmörgum íbúðarhúsum, Hálft þakið af lagmetisgerðinni í Grindavík fauk og járn af nokkrum húsum í þorpinu, allstórt fjárhús splundraðist í Ísólfsskála og fjárhús fuku einnig á bænum Hrauni, eitt íbúðarhús í Sandgerði var talið nær ónýtt og þar fauk af mörgum húsum. Trilla sökk í Njarðvík. Mikið tjón varð á húsum á Keflavíkurflugvelli og flugskýli sködduðust. Þak fór af einu húsi í Garðinum og eitthvað af skúrarusli fauk. Þak fauk af bílskúr í Vogum og plötur af nokkrum húsum öðrum. Trilla fauk á Neðri-Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd og þak tók af heyhlöðu og hlið á húsinu skemmdist, á Efri-Brunnastöðum fauk þak af útihúsi og hlið úr fárhúsi á Ásláksstöðum, tjón varð á fleiri bæjum í hreppnum.

Tjón varð á að minnsta kosti 80 stöðum í Vestmannaeyjum, þar fauk íbúðarhús til á grunni, þakhlutar fuku af fiskvinnsluhúsum og netagerðarverkstæðum, kona fauk og beinbrotnaði. Flugskýli eyðilagðist. Lundaveiðiskýli löskuðust illa eða eyðilögðust, húsið í Álfsey talið ónýtt, sömuleiðis hús í S(n)æfelli og húsið í Bjarnarey fauk með öllu, hús í Dalfjalli skemmdist minna. Þök á 20 íbúðarhúsum skemmdust á Hellu, rúður brotnuðu, hesthús og sumarbústaðir skemmdust. Íbúðarhúsið í Holtsmúla í Holtum skemmdist mikið og þak tók af fjósi, þök fuku af fjósum í Næfurholti og Stúfsholti. Vinnuskúrar skemmdust á Hvolsvelli og járn fauk af fáeinum húsum, trésmíðaverkstæði skaddaðist. Í Dufþaksholti og Götu fuku hlöður.

Sumarbústaðir fuku í Fljótshlíð, í Smáratúni fauk þak af fjósi, tvö hesthús í Hellishólum, fjárhús á Efri-Þverá og á Kirkjulæk, í Ormskoti fauk helmingur af íbúðarhúsþaki og hluti af hlöðu á Lambalæk hvarf út í buskann. Miklar skemmdir urðu í Djúpárhreppi, vélaskemma og hlaða fuku á Háurim og þar hrundi fjós, á Háfi 2 gekk gafl í íbúðarhúsi inn. Á Snjallsteinshöfða á Landi fauk fjárhús, fjárhús fuku einnig á Árbakka og í Neðra-Seli. Fjárhús fuku á bænum Vindási á Rangárvöllum. Talsvert tjón varð af foki í Álftaveri og Landbroti, en aðallega fauk af gömlum útihúsum. Eignatjón var talið á þriðja hverjum bæ undir Eyjafjöllum, mest varð það á Rauðafellsbæjum og Skálafellsbæjum, járnplötur losnuðu og rúður brotnuðu, í Selkoti bognaði inn veggur í nýju stálgrindarhúsi.

Nýreist íbúðarhús á Leifsstöðum í Austur-Landeyjum fauk og gjöreyðilagðist, hlaða splundraðist á Syðri-Hömrum í Ásahreppi, gafl fauk úr verkstæðishúsi í Brautarholti á Skeiðum, þak fór í heilu lagi af fjárhúsi í Miklaholti í Biskupstungum, annað fjárhús þar eyðilagðist, fjárhús eyðilagðist á Heiði og annað á Vatnsleysu. Fjárhús á Syðra-Seli í Hrunamannahreppi splundraðist og fauk, einnig fauk af fleiri húsum á bænum, fjárhús fuku einnig á Hrafnkelsstöðum og Hrafnsstöðum, á Fossi fauk járn af hlöðu og fjósi og voru húsin illa farin, hús skemmdust á mörgum bæjum þar um slóðir. Fjárhúsgafl féll á Sólheimum í Hreppum og drap 14 kindur. Stór hlaða féll niður í Kjarnholti. Gróðurhús skemmdust mikið á Flúðum og í Laugarási, Syðri-Reykjum, Haukadal og Friðheimum, Nokkur hjólhýsi fuku á Flúðum og þak fauk þar af gömlu íbúðarhúsi.

Tjón varð á 72 stöðum á Selfossi (m.v. þ.4.), en víðast ekki stórfellt, rúður brotnuðu, járn fauk, tré rifnuðu upp og uppsláttur fór út í veður og vind. Mikið tjón varð á sveitabæjum í Flóanum, á Vorsabæjarhjáleigu fauk fjárhús og járn tók af fleiri húsum, fjárhús fauk á Hamri, ærhús og hlaða fuku í Seljatungu þar skemmdist íbúðarhúsið einnig, hlöðuveggur hrundi á Neistastöðum. Fjárhús á Miðengi í Grímsnesi fauk og járn af fjárhúsum í Vorsabæ og Hvoli í Ölfusi. Í Hveragerði fauk þak af íbúðarhúsi og blikksmiðju og plötur losnuðu á íbúðarhúsum. Miklar skemmdir urðu í tívolíinu, skemmdir urðu á þaki Eden og fjöldi gróðurhúsa skaddaðist illa. Talið var að annað hvert íbúðarhús á Eyrarbakka hafi skaddast eitthvað, en þök tók í heilu lagi af tveimur íbúðarhúsum og skemmdu önnur hús, fjós og bílskúr fuku þar út í buskann. Hesthús, hlaða og bílskúr fuku á Stokkseyri og járn tók af húsum. Þak fauk af byggingum Meitilsins í Þorlákshöfn, hluti af þaki íbúðarhúss og rúður brotnuðu í nokkrum húsum. Talið var að eitthvað tjón hafi orðið á öllum bæjum í Gaulverjabæjar- og Villingaholtshreppum.

Hluti af þaki fiskvinnsluhúss á Akranesi fauk lenti á ljósastaur og skemmdi bensínstöð lítillega. Þak fór einnig af trésmiðjuhúsi. Þakjárn fauk af allmörgum húsum í Borgarnesi, rúður brotnuðu og garðhýsi eyðilögðust. Járn fauk að mestu af þaki brauðgerðar KB og braut rúður í hótelinu, 12 bílar skemmdust. Bíll fauk út af vegi við Hafnarfjall. Skemmdir urðu á íbúðarhúsi á bænum Höfn vegna grjótflugs.

Þak fauk að mestu af íbúðarhúsi í Síðumúla í Hvítársíðu. Miklar skemmdir urðu á gróðurhúsum í Stafholtstungum og í Reykholtsdal í Borgarfirði, þúsundir af rúðum brotnuðu og stórkostlegt tjón varð á plöntum. Þak fauk af hlöðu á Ásgarði í Reykholtsdal og hlöðuþak fauk á Brekku í Borgarhreppi. Þakplötur fuku á Hofstöðum í Álftaneshreppi og þak losnaði á íbúðarhúsi á Gröf í Borgarhreppi. Á Hálsum í Skorradal fauk gafl úr fjárhúshlöðu og járnplötur, vegklæðning fauk af vegi á Hvanneyri, skemmdi húsklæðningu og braut rúður í íbúðarhúsi. Gafl fauk af hlöðu í Múlakoti í Lundarreykjadal, geymslubraggi fauk í Gilstreymi, járn tók af fjárhúsum í Tungufelli og þak af geymsluhúsi á Hvítárvöllum. Fjárhúshlaða fauk á Kvígsstöðum og allt járn fór af ónotuðu íbúðarhúsi, þakplötur fuku af hesthúshlöðu á Heggstöðum, á Krossi í Lundarreykjadal eyðilögðust hlaða og fjárhús. Veggur sprakk og skekktist í nautastöðinni á Hvanneyri, þak af fjárhúsum og hlöðu fauk á Miðfossum, víðar fuku plötur og rúður brotnuðu þar í sveitum.

Í Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal fauk járn að mestu af íbúðarhúsinu og stór braggi eyðilagðist. Plötur fuku af gömlum húsum á Grund og á Syðri-Rauðamel, járn tók af hluta þaks íbúðarhússins í Söðulsholti og nokkurt járn fauk af útihúsum á Ytri-Rauðamel, Akurholti, Hrútsholti og Rauðkollsstöðum. Þak fauk af hlöðu í Skógarnesi, nýtt sumarhús gjöreyðilagðist á Svarfhóli, minna tjón varð á 13 öðrum bæjum. Þak tók að hluta af hlöðu á Fossi í Staðarsveit og járn fauk af íbúðarhúsinu, járn fauk einnig af gömlum húsum á Görðum, þak fór af hluta gamallar hlöðu á Bláfeldi og járnplötur fuku á nokkrum öðrum bæjum í sveitinni. Tjón varð á höfninni á Hellnum, skúr fauk í heilu lagi á Arnarstapa, vélageymsla og dráttarvél fuku á eyðibýli í Breiðuvík, minni skemmdir urðu á öðrum bæjum.

Trilla sökk í höfninni á Rifi, stór skemma hraðfrystihússins í Ólafsvík lagðist saman og járn tók af nokkrum húsum, m.a. frystihúsinu öllu. Nokkrir bílar skemmdust. Hálft þak fauk af skrifstofubyggingu í Grundarfirði, bátar fuku þar á hliðina og gróðurhús skemmdust. Á Kverná fuku fjárhúsin, hálft þak af hlöðu og bogaskemma að mestu. Á Skallabúðum skemmdist íbúðarhúsið illa, fjárhús og gróðurhús fuku. Þak fauk af húsi slippstöðvarinnar Skipavíkur í Stykkishólmi, hluti golfskála fauk þar, geymsluskúr sprakk á Kársstöðum í Álftafirði og skemmdi brakið fjóra bíla og jafnaði gamla íbúðarhúsið við jörðu. Klæðning skemmdist á íbúðarhúsum í sveitinni. Þak fauk af hlöðu á Giljalandi í Haukadal og sjö bílar sem stóðu á hlaðinu skemmdust, einn þeirra valt um 30 metra. Skemmdir urðu á nokkrum húsum í Búðardal. Miklar skemmdir urðu á íbúðarhúsi á Svínhóli í Miðdölum. Nokkuð plötufok varð á öðrum bæjum í Dölum, m.a. á Gunnarsstöðum í Hörðudal og Bugðustöðum. Fjárhús og hlaða fuku á Mýrartungu í Austur-Barðastrandarsýslu, fjós fauk á Borg í Reykhólasveit og plötur fuku víðar á þeim slóðum.

Tvö fjárhús fuku á Haga á Barðaströnd og fleiri hús skemmdust, rúður og dyr Hagakirkju brotnuðu og þar fauk einnig bifreið eina 300 metra. Fiskhjallar hrundu á Patreksfirði. Þak fauk af 400 fermetra verslunarhúsnæði á Tálknafirði, þar fauk einnig þak á laxeldistöð og hesthús tók upp í heilu lagi, fimm bílar skemmdust og maður slasaðist. Á Ósi í Arnarfirði fauk lítið útihús á haf út og járn tók af íbúðarhúsinu, í Neðra-Bæ fauk þriðjungur af hlöðuþaki, þakplötur fuku og stórar hurðir brotnuðu á Fremri-Hvestu, gömul hlaða fauk á Lokinhömrum og þar og á Hrafnabjörgum fauk járn af húsum, vélarhús fauk út í buskann í Hringsdal og í Otradal fauk hús á bílskúr. Rúður brotnuðu í vélahúsi Mjólkárvirkjunar. Þak fauk af hlöðu og bíll 70 metra á Ketilseyri við Dýrafjörð.

Talið var að fjórða hvert hús á Flateyri hafi orðið fyrir tjóni, þak fauk þar í heilu lagi af beinamjölsverksmiðju og járn af fiskverkunarhúsum, sumarbústaður á Innri-Veðraá í Önundarfirði fauk á haf út, veðrið braut útihurð í Flateyrarkirkju, þakplötur fuku af húsi sparisjóðsins og fjölmörgum íbúðarhúsum, rúður brotnuðu í mörgum húsum, kyrrstæður bíll fauk 40-50 metra og klæðning flettist af Flateyrarvegi. Gafl gekk inn í útihúsi á Botni í Súgandafirði og járn tók af húsum. Þak flettist af einbýlishúsi á Suðureyri og skemmdi annað hús, gafl skekktist einnig í íbúðarhúsi. Plötur fuku einnig í Staðardal. Vegurinn fyrir Spilli spilltist mjög af sjógangi. Í Fagrahvammi í Dagverðardal við Skutulsfjörð fuku þök af nokkrum útihúsum og þar í grennd lagðist bogaskemma saman og jeppi fauk út af vegi, bílstjórinn slasaðist.

Bílasalan Elding á Ísafirði fauk og gjöreyðilagðist, þakplötur fuku víða af húsum á Ísafirði og rúður brotnuðu. Þak fauk af hlöðu á Hrauni í Hnífsdal og skemmdir urðu þar á spennistöð. Bíll fauk af Hnífsdalsvegi, ökumaður slapp með skrámur. Fiskhjallar skemmdust í Bolungarvík. Þak fauk með sperrum og öllu af fjárhúshlöðu á Rauðamýri í Djúpi, á Hallsstöðum lagðist vélageymsluhús saman og fauk síðan. Járnplötur fuku á fleiri bæjum. Hafnargarðurinn á Hólmavík skaddaðist þak fauk af tveimur ótilgreindum hlöðum og einu fjárhúsi þar í grenndinni. Kirkja lyftist af grunni og skekktist í Árnesi á Ströndum.

Braggi fauk við Hrútatungu í Staðarhreppi. Fjárhús fauk á Þorgrímsstöðum á Vatnsnesi, vélageymsla fauk í heilu lagi á Gröf í Víðidal og í Enniskoti brotnuðu allar rúður á móti suðri, gafl fór úr fjárhúsum á Ægissíðu í Vesturhópi. Flugskýli skaddaðist á Laugabakka í Miðfirði og þriðjung tók af fjárhúsþaki á Mýrum í Ytri-Torfustaðahreppi. Þak tók af hlöðu og hesthúsi á Þingeyrum, hluti af fjósþaki fauk á Hnausum. Helmingur af íbúðarhúsþaki á Blöndubakka í Engihlíðarhreppi fauk og þak á fjárhúsum og hlöðu losnaði á Breiðavaði. Rúður brotnuðu í Húnavallaskóla. Flugskýli á Blönduósflugvelli lagðist saman og eyðilögðust þrjár flugvélar, þakplötur fuku af barnaskólahúsinu og slökkvistöðinni og húsið Votmúli skemmdist mikið. Mikið af rúðum brotnaði í húsum, olíuafgreiðsla Esso varð illa úti, bílar skemmdust, skjólveggir og skúrar fuku. Grjótflug braut margar rúður á Skagaströnd og fjóshlaða fauk á bænum Felli þar í grennd.

Þakefni tók í heilu lagi af einbýlishúsi á Sauðárkróki, þakplötur fuku af íbúðarblokk og af húsi mjólkursamlagsins, bílar skemmdust af áfoki. Þakplötur fuku af húsum í Hegranesi og á fáeinum bæjum innan við Sauðárkrók. Gömul fjárhús og hlaða fuku á Hrauni í Sléttuhlíð, þak fauk af hlöðu á Bræðraá og gamlar byggingar á Tjörnum og í Glæsibæ sködduðust. Bátur eyðilagðist í höfninni á Hofsósi og þar fuku þakplötur af húsi heilsugæslunnar. Á Sandfelli í Unadal skemmdust öll hús mikið og eitt er gjörónýtt, á Óslandi í Sléttuhlíð hurfu fjárhús og hlaða, en fé sakaði ekki. Hluti fjárhúsa fauk á Undhóli. Nýtt trégrindarhús fauk með öllu á Narfastöðum í Viðvíkursveit í Skagafirði. Fjós og fjóshlaða skemmdust mikið á Bústöðum í Austurdal í Skagafirði, plötur losnuðu á Miklabæjarkirkju, rúður brotnuðu í húsum í Varmahlíð. Útihús fuku í heilu lagi á Réttarholti í Blönduhlíð og plötur fuku af húsum á Minni-Ökrum.

Skíðalyfta í Hlíðarfjalli við Akureyri lagðist niður á kafla og allar rúður brotnuðu í sunnanverðu skíðahótelinu. Þakplötur fuku af nokkrum húsum á Akureyri, sjór flæddi í kjallara á Oddeyri og um tveir tugir bifreiða skemmdust af grjótflugi við Akureyrarflugvöll. Skemmdir urðu á allmörgum húsum á Ólafsfirði, skemmdir urðu á útihúsum í Kálfsárkoti og trilla laskaðist, skúrar fuku, mannvirki á íþróttavellinum og á skíðasvæðinu löskuðust. Minniháttar tjón varð á Dalvík, plötur fuku þó af skólahúsi og bílar sködduðust, nokkrir fiskhjallar hrundu. Snarpur vindsveipur gekk yfir bæinn Kot í Svarfaðardal, þakplötur, heyvagn, bílar og hænur fuku um bæjarhlaðið, braggi splundraðist, fólksbíll tókst á loft og fauk 60 metra, jeppi fór byltu og endaði uppi á túni ásamt gömlum heyvagni og þakplötur fuku af íbúðarhúsinu, minniháttar foktjón varð á Grenivík. Fimm gróðurhús skemmdust á Brúnalaug í Eyjafjarðarsveit. Þakplötur losnuðu á nokkrum húsum á Húsavík. Skúr björgunarsveitar fauk í Ljósavatnsskarði og fáeinar plötur fuku af Stórutjarnarskóla. Lítil vélageymsla fauk í Bakkafirði.

Yfirlit úr fréttum frá Rannsóknastofu byggingariðnaðarins (Alþýðublaðið 21.11. 1991).
Fárviðrið mikla 3. febrúar síðastliðinn olli tjóni á 4.550 eignum ýmiskonar svo vitað sé. Áætlað hefur verið að tjónið hafi numið um einum milljarði króna, og er þá útvarpsmastrið á Vatnsendahæð ekki meðtalið. Þrír fjórðu hlutar þessa tjóns urðu á húsum eða hlutum tengdum þeim, segir í fréttum frá RB, sem annaðist rannsókn á skemmdum af völdum veðursins. Tegund og umfang tjóns var mismunandi eftir fasteignum. í 347 tilvikum gjöreyðilagðist hús, þar af eitt íbúðarhús. Þakjárn losnaði í 940 tilvikum, þak fauk eða losnaði í 226 tilvikum til viðbótar. Í rúmlega 60 tilfellum brotnaði eða bognaði veggur undan álagi vindsins. Átta sumarbústaðir eyðilögðust með öllu, en tjón varð á um 100 til viðbótar. Þá fóru garðhús og gróðurstöðvar illa í fárviðrinu. Einkum varð tjón á eldra húsnæði, enda þótt næg dæmi væru um skemmdir á nýbyggingum.

Í greinum [1995], [1999] í tímaritinu Tellus fjölluðu þeir Jón Egill Kristjánsson, Sigurður Þorsteinsson og Guðmundur Freyr Úlfarsson um ástæður þess að lægðin varð svo öflug - og reyndu að jafnframt að greina hvers vegna tölvuspám þess tíma gekk illa að ráða við hana. Rétt er að hafa í huga að greinarnar eru mjög tæknilegar. 


Mal um fárviðri í Reykjavík

Allmargir staðir á landinu eru ef til vill veðursælli en Reykjavík, en þegar á allt er litið er höfuðborgin til þess að gera veðursælt pláss. Með aukinni byggð og stórvaxnari gróðri hefur meira að segja heldur dregið úr vindi víða um bæinn - þar á meðal á Veðurstofutúni þar sem varla hreyfir nú vind miðað við það sem áður gerðist. Minna mun hafa breyst á flugvellinum þar sem hinar opinberu vindmælingar voru gerðar á árunum frá 1946 til 1973 - byggð og gróður virðist samt vera farin að hafa áhrif þar líka. 

Vindur á sjálfvirku veðurstöðvunum á Geldinganesi og uppi á Hólmsheiði - ekki langt frá jaðri byggðarinnar - sýnir þó alloft klærnar. Engan langtímasamanburð er þó að hafa á þessum stöðvum. 

Saga vindmælinga í Reykjavík er óþægilega ósamfelld - og samanburður tímabila ekki auðveldur. Vindmælarnir á flugvellinum voru t.d. mismunandi gerðar og staðsettir á þaki gamla flugturnsins - í 17 metra hæð. Staðalhæð vindmæla er hins vegar 10 metrar. Lesa má um sögu veðurathugana í Reykjavík í greinargerð Veðurstofu Íslands 1997 - auðvitað skyldulesning áhugamanna um Reykjavíkurveður - en ritstjóri hungurdiska kann hana samt ekki utanað.  

Sú er hugmynd ritstjóra hungurdiska að líta á þau tilvik þegar vindhraði á veðurstöðinni Reykjavík hefur náð fárviðrisstyrk - hvert fyrir sig í pistlum í vetur (endist honum þrek og þróttur). Munu þessir pistlar (ef einhverjir verða) birtast á stangli. Áðurnefndar ósamfellur mælinga eru þó þess eðlis að tilvikin eru mistrúverðug - mölum e.t.v. þar um þegar að því kemur - en látum aðallega sem ekkert sé. 

Þegar þetta er ritað eru liðin rúm 25 ár síðan fárviðri mældist síðast á Reykjavíkurstöðinni. Er það óvenjulangt hlé. - Kannski hefur breytt veðurlag á Veðurstofutúni eitthvað með það að gera - en ekki endilega. Illviðri eru nefnilega býsna tilviljanakennd og við ættum ekki að láta þennan „skort“ slá okkur út af laginu.

Nú eru komnir inn pistlar fyrir eftirtalin Reykjavíkurfárviðri:

2. febrúar 1991

16. febrúar 1981

24. september 1973

Og fyrir skömmu var líka fjallað um tvö önnur skyld veður (þó fárviðri teldist ekki í Reykjavík):

16. september 1936 (tveir pistlar)

25. febrúar 1980 


Bloggfærslur 25. september 2016

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 160
  • Sl. viku: 1751
  • Frá upphafi: 2348629

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1532
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband