Yfir Íshafinu

Ísmagn mun nú vera með allra minnsta móti í norðurhöfum - en skiptar skoðanir eru uppi um hvort nýtt allsherjarlágmarksmet verður sett í haust. Til þess að slíkt geti orðið þarf veðrið yfir Norðuríshafi að þræða ákveðna leið - nokkuð vandrataða. 

Það er að vísu rétt hugsanlegt að ástandið í sjónum sé orðið ísnum svo fjandsamlegt að veðrið skipti litlu sem engu máli - en við skulum ekki fara að gera ráð fyrir slíku fyrirfram - enda ólíklegt. 

Til að sem mest bráðni þarf heiðríkju í júní og júlí og helst háþrýsting líka (þetta tvennt fer reyndar oft saman). Velstaðsett hæðarhringrás sér til þess að halda ísnum saman - meðan mest af þynnsta ísnum yfir landgrunni Síberíu á jaðri meginísbreiðunnar hverfur. 

Síðan þarf lágþrýsting í ágúst og helst sem mestan vind á sama tíma til að dreifa úr meginísnum yfir á þau svæði sem þá þegar eru orðin auð - og yfirborð sjávar hefur náð því að hitna. Skýjað og vindasamt veður í september getur síðan hjálpað til. Á þennan hátt er bráðnun hámörkuð. 

Nokkurn veginn svona var atburðarásin metsumarið 2012 - en ísmagnið virðist nú vera ekki ósvipað því sem þá var á sama tíma í júníbyrjun. 

En þessa dagana eru skilyrði ekkert sérlega góð til metbráðnunar. - Lægðasvæði yfir Íshafinu - sem veldur skýjuðu veðri - og enn er tilgangslítið að dreifa ísnum, slíkt gengur illa fyrr en mun meira hafsvæði er orðið autt. 

Enn allt er þetta samt fremur spennandi. Lítum á háloftastöðuna á norðurslóðum um helgina. Kortið er úr smiðju bandarísku veðurstofunnar og gildir síðdegis á sunnudag, 12. júní. 

w-blogg110616a

Ísland er neðst á kortinu, í hagstæðum, hlýjum hæðarhrygg (sem gefur sig smám saman), en eins og venjulega eru kuldapollar á sveimi í norðri. Það er töluverður órói í þeim - það mikill að við gætum hæglega lent í skotlínunni. Reiknimiðstöðvar eru þó ekki sammála - og satt best að segja er varla hægt að reikna þetta kúluspil lengra fram í tímann en 4 til 5 daga með einhverri vissu. - 


Bloggfærslur 11. júní 2016

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 28
  • Sl. sólarhring: 138
  • Sl. viku: 1777
  • Frá upphafi: 2348655

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 1556
  • Gestir í dag: 26
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband