Kaldur sjór - (á eitthvað að vera að ræða hann?)

Ritstjórinn er í vafa - en þegjum ekki alveg.

Fyrst er kort sem sýnir meðalyfirborðssjávarhita í apríl síðastliðnum - eftir greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar. Ætti að vera sæmilega nærri réttu lagi - nema í námunda við ísjaðarinn þar sem alls konar álitamál koma upp.

w-blogg080516a

Litakvarðinn skýrist sé kortið stækkað. Fjólubláu svæðin sýna hvar yfirborðshitinn er undir frostmarki (ferskvatns), bláir litir ná svo upp í +5 stig og guli liturinn markar +10 stigin. Fjögur rauð strik hafa verið sett inn á myndina, tölumerkt til áherslu.

Strik 1 sýnir að mjög mikill hitamunur er á örmjóu svæði suðaustur af Nýfundnalandi, 10 stig á aðeins nokkur hundruð kílómetrum (og það í mánaðarmeðaltali). Þetta er við norðvesturbrún Golfstraumsins. Þar eru miklir sveipir og hlykkir - og lítil hnik geta þýtt stór hitavik - en að jafnaði ekki mjög merkingarbær. 

Ívíð meiri þýðingu hafa vik við strik 2 - þar jafngildir 1 stig í viki færslu marka hlý- og kaldsjávar um 70 til 100 km. Við strik 3 er flatneskja mun meiri og 1 stigs vik til eða frá eru býsna merkingarbær - „tilfærsla“ um 100 til 300 km í kerfinu. Við straumamótin austur og suðaustur af Ísland eru svo líka skörp skil. 

Við skulum líka hafa hitatölur í huga. Á megninu af svæðinu er hiti meiri en 4 stig - og sumarhlýnun varla hafin. 

Næsta kort sýnir svo vik - miðað við 1981 til 2010.

w-blogg080516b

Strikin eru hér líka. Vikin við strik 1 eru mjög stór - en mjög hlykkjótt og tengjast greinilega einstökum sveipum Golfstraumsbrúnarinnar - erfitt að segja hvað nákvæmlega er hvað. Við strik 2 og 3 er hins vegar engin sjáanleg tenging við legu jafnhitalínanna á fyrra korti. Svæðin eru einfaldlega kaldari en meðaltalið. - Í því er einhver merking. Svæðið þar sem vikin eru meiri en -1 stig er nokkuð stórt - en á megninu af bláa svæðinu eru vikin þó aðeins -0,2 til -1,0 stig. - Það er þó vel marktækt - og munar um. 

Við strik 4 er almennt hlýrra en venjulega - en þó virðast aðalskilaboðin e.t.v. felast í því að skilin séu veikari en að meðaltali - hlýrra að tiltölu norðan þeirra heldur en sunnan. 

Þessi neikvæðu vik hafa nú lifað í rúm tvö ár - byrjuðu vestan til á svæðinu og hafa síðan þokast austur á bóginn. En lifa þau áfram - og hvers vegna urðu þau til?

Lítum á fleira - nokkuð flókna mynd. 

w-blogg080516c

Ja, hérna. Fyrst er að geta þess að myndinni er nappað úr grein eftir Kieke og Yashayaev (2015 - sjá tilvitnun í myndarhaus). Staðurinn sem gögnin sýna er í Labradorhafi - suðvestan Grænlands.

Lárétti ásinn sýnir tíma, byrjar á miðju sumri 2002 (lengst til vinstri) og endar á miðju sumri 2014 (til hægri). Lóðrétti ásinn sýnir þrýsting - í desibörum. Desibarið er hentug þrýstieining í sjó vegna þess að gróflega má segja að þrýstingur aukist um 1 bar á hverja 10 metra dýpis, eða 1 dbar á 1 metra. Desibarakvarðinn samsvarar því nokkurn veginn metrum í sjávardýpi. 

Þetta er sum sé tímaþversnið - sjávardýpi á lóðréttum ás, en tími á láréttum. Litirnir sýna hins vegar mættishita (enginn friður fyrir honum). Mættishiti er í þessu tilviki sá hiti sem sjór fengi ef hann væri dreginn upp af dýpi (til minni þrýstings) til sjávarmáls. Rétt eins og í lofthjúpnum segir mættishitinn mikið um stöðugleika.

Mættishiti fellur með dýpi í sjónum - kaldasti sjórinn liggur neðst. Til að við áttum okkur betur á því sem myndin sýnir skulum við líta stækkaða búta úr henni (neðan við meginmyndina).

Sá sem er til vinstri sýnir okkur vel að árstíðasveifla er í hitanum. Strikin við efri brún myndarinnar sýna áramót - þá gerist eitthvað - alltaf. Út úr þessum bút klippum við svo annan - þann til hægri - sem sýnir árið 2011 - frá sjávaryfirborði og niður á um 700 metra dýpi. 

w-blogg080516d

Hér ættu megindrættir að sjást vel. Sólarylur hitar sjávaryfirborðið að vori og sumri - ylurinn hækkar mættishitann og smám saman blandast hann niður á meira dýpi - það gengur þó illa sé vindur hægur um lengri tíma - hlýr sjórinn flýtur vel. Hraði blöndunarinnar vex þegar kemur að hausti - þá fara haustlægðirnar og öflugir vindar þeirra að hjálpa til - hlýindin eru svo enn á leið niður í djúpið þegar yfirborðið fer um síðir að kólna þegar langt er liðið á haust. - Í desember tekur kuldinn svo völdin - þá fellur hiti (og mættishiti) ört og loks missir yfirborðsjórinn flot og fer að sökkva. Ofsaveður vetrarins auðvelda auk þess blöndun kuldans niður á dýpið. 

Myndin sýnir að þessi kæling blandar sjóinn á hverjum vetri - en mjög mislangt niður. Á aðalmyndinni má sjá að veturnir 2008 og 2014 skera sig úr - þá nær blöndunin miklu dýpra - yfirborðssjórinn hefur kólnað mun meira en aðra vetur. Kólnunin síðarnefnda árið var þó mest. - Og síðan þá hefur sumarhitinn ekki alveg náð sömu hæðum og áður (sést ekki á myndinni), veturinn 2015 bauð upp á svipuð skilyrði - en við vitum ekki enn um þann nýliðna, 2016. 

Við ættum að sjá af þessari mynd að svo getur viljað til að sumarylurinn blandist seint niður - flotið sé gott. Sé sjórinn tiltölulega ferskur aukast líkur á slíku ástandi. Þá gætum við fengið að sjá jákvæð vik í yfirborði yfir sumarið. Gerist það í sumar eru það ekki endilega sérlega jákvæð tíðindi - kuldinn liggur þá trúlega enn í leyni rétt undir og kemur aftur í ljós þegar vindblöndun hefst í haust.

Sú þróun sem við vildum helst sjá er að hægt og rólega dragi úr vikunum - slíkt gæti bent til þess að sumarylurinn sé hægt og bítandi að vinna á kuldanum - og að ferskvatnslagið sé ekki að styrkjast (það vilja menn ekki). 

Þessi seta er nú orðin nógu löng - en við skulum samt taka eftir því að lokum að til að ná lóðréttri blöndun þarf yfirborðshiti að falla niður fyrir 3,5 stig - eða þar um bil. Sú tala er ekki mikið hærri austar í Atlantshafinu - flotsamskipti milli yfirborðs og dýpri laga eru því illmöguleg þar - til þess þyrftum við að sjá -5 stiga sjávarhitavik. Eins og áður var bent á er það svæði sem hiti er lægri en 4 stig lítið miðað við flatarmál hafsvæðisins alls. 

En abbast þetta eitthvað upp á okkur - og þá hvernig? Það er svo önnur saga - og enn lengri - og ekki allt sem sýnist í þeim efnum. 


Bloggfærslur 8. maí 2016

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 88
  • Sl. sólarhring: 275
  • Sl. viku: 1662
  • Frá upphafi: 2350289

Annað

  • Innlit í dag: 53
  • Innlit sl. viku: 1502
  • Gestir í dag: 52
  • IP-tölur í dag: 51

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband