Næstmestu hugsanlegu veðurfarsbreytingar

Í hungurdiskapistli fyrir nokkrum dögum var fjallað um mestu veðurfarsbreytingar sem hugsanlegar eru, aljöklun og óðagróðurhúsaáhrif. Þær eru til allrar hamingju nokkuð úti úr kortinu. Aðrar öfgakenndar breytingar eru nær - en teljast samt mjög ólíklegar.  

Síðustu jökulskeið núverandi ísaldahrinu eru gjarnan notuð sem einskonar sviðsmyndir á kalda kantinum - þau gengu þrátt fyrir allt yfir tiltölulega nýlega, en á hlýja kantinum er gripið í einkennilega hlýskeiðahrinu á paleósen- og eósentíma snemma á nýlífsöld. Paleósenskeiðið hófst fyrir um 66 milljón árum og stóð í um 10 milljón ár, þá tók eósen við og stóð þar til fyrir um 34 milljónum ára. 

Á þessum tíma var almennt mjög hlýtt á jörðinni - og veröld öll önnur en nú er. Þegar farið var í saumana á líklegu veðurlagi á þessum tíma kom í ljós að sérlega hlýtt hafði verið nærri mörkum paleósen og eósen, fyrir um 55 milljón árum. Mestu hlýindin stóðu ámóta lengi - eða heldur lengur en jökulskeið ísaldar - í 100 til 200 þúsund ár. 

Þetta var nefnt „paleocene-eocene thermal maximum“ skammstafað petm. Síðar hefur komið í ljós að svona skeið eru fleiri - alla vega á eósen - en ekki alveg jafnhlý. Tilhneiging hefur því verið til þess að kalla petm frekar „eocene thermal maximum 1“, etm-1, og síðan hin síðari (minni) hlýskeið í einhverri númeraröð.  

Hlýindin á etm-1 voru hreint með ólíkindum og virðast hafa skollið á á aðeins nokkur þúsund árum - í mesta lagi. - Mjög hlýtt var í heiminum fyrir, miklu hlýrra en nú er, en skeiðið er 6 til 8 stigum hlýrra en tímabilin í kring. Talað er um að sumarhiti í Norðuríshafi (sem var auðvitað rangnefni) hafi verið allt að 23 stig - en var annars ekki „nema“ um 15 stig almennt á eósen - 15 stigum hærri en nú. Munur á vetrarhita þá og nú var enn meiri norðurslóðum. 

Hin „almennu“ eósenhlýindi eru talin hafa verið tiltölulega meiri á norðurslóðum heldur en sunnar - hitamunur heimskauta- og hitabeltissvæða þar með minni en nú er. Sumir halda því fram að hamfarahlýnunin á etm-1 hafi verið miklu jafnari yfir heiminn. 

Þessar tölur eru svo háar - bæði hinn almenni eósenhiti og á etm-1 að „öfgatal“ um 6 stiga hlýnun á norðurslóðum af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa - og 2 stiga hlýnun í heiminum almennt - verður allt í einu að smámunum - og einhvern veginn miklu líklegri fyrir það eitt að svona nokkuð hefur í raun og veru átt sér stað. 

Meginástæða hlýindanna? Jú, aukin gróðurhúsaáhrif. - Mjög margt er þó óljóst varðandi þessi hlýindi. Ekki hefur gengið vel að herma þau í líkönum - en betur þó nú en fyrir 20 árum. 

Mikið þarf að ganga á til þess að hin almennu hlýindi eósenskeiðsins skelli á okkur - slíkt er sennilega útilokað - og mun ólíklegra heldur en skyndilegt, nýtt jökulskeið - þótt ólíklegt sé. En það eru hins vegar „aukahlýindi“ etm-1 og snerpa þeirra sem valda mönnum hugarangri, 5 til 8 stig á heimsvísu. Losun gróðurhúsalofttegunda er nú enn hraðari heldur en sú losun sem virðist hafa orðið (af náttúrulegum ástæðmu) í upphafi þessa ógurlega hlýskeiðs. 

Við munum í síðari pistli halda áfram að velta vöngum yfir mögulegum hlýindum (á sérviskulegan hátt). 


Bloggfærslur 26. maí 2016

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 111
  • Sl. viku: 1498
  • Frá upphafi: 2348743

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1304
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband