Af hlýjum októberdögum

Nú hefur verið hlýtt á landinu í nokkra daga, mikill fjöldi dægurhámarksmeta hefur fallið á veðurstöðvunum auk þess sem fáein dægurmet landsmeðalhita, meðalhámarks og lágmarks hafa fallið - sé aðeins miðað við sjálfvirku stöðvarnar. Sé leitað lengra aftur í tímann finnast þó hærri tölur á þessum dagsetningum - nema þann 4. Sá dagur var þó ekki hlýjastur í núverandi syrpu heldur hefur þannig viljað til að langtímaskortur er á sérlegum hlýindum þann dag - svona er happdrætti hitans.

w-blogg091016a

Hér má sjá vitnisburð um hlýja októberdaga. Lárétti ásinn rennir í gegnum daga mánaðarins, en sá lóðrétti markar hita. Blái ferillinn sýnir hæsta landsmeðalhita hverrar dagsetningar á tímabilinu 1949 til 2016. Þar má m.a. sjá að 6. október 1959 er hlýjasti októberdagur þessa tímabils alls - og einnig hversu illa áðurnefndur 4. október hefur staðið sig. 

Nú er mannaða mælikerfið mjög að grisjast og sjálfvirkar mælingar taka við. Nýja kerfið rennur að mestu vel saman við það eldra - en hefur ekki verið starfrækt jafnlengi. Samskonar lína úr sjálfvirka kerfinu liggur rétt neðan við þá bláu mestallan mánuðinn, en mun væntanlega í framtíðinni smám saman stinga sér upp fyrir - rétt eins og hún gerði nú þann 4. 

Meðalhámarkshiti landsins var hæstur 2. október 1973 en hæsta hæsta meðallágmarkið á sama dag og meðalhitinn, 6. október 1959 - þá var landsmeðallágmarkshitinn nærri því 10 stig - við sjáum að það telst mikið ef hann er hærri en 8 stig - í fyrradag (þann 6. náði hann einmitt 8,0 stigum). 

Hlýindin núna eru sem sagt mikil - en varla þó sérlega óvenjuleg. 

Engin landsdægurmet hafa fallið í hlýindunum nú. Myndin hér að neðan hefur sést áður á hungurdiskum. Hún sýnir landsdægurmet októbermánaðar (blár ferill) - sem og dægurmet í Reykjavík (rauður).

w-blogg091016b

Hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í október er 23,5 stig. Það var á Dalatanga þann 1. 1973 - óþægilega nærri mánaðamótum. Októbermetið í Reykjavík, 15,7 stig, er þó enn óþægilegra - því sá hiti er reyndar leif mánaðarins á undan - fannst á skinni höfuðborgarbúa undir kvöld 30. september 1958. - En svona eru reglurnar - hámarksmælingamánaðamót mönnuðu veðurstöðvanna eru hliðruð um 6 klukkustundir miðað við þau raunverulegu. - Við nennum varla að standa í því fyrir sjálfvirku stöðvarnar vegna þess að það er óþarfi. 

En eins og sjá má hefur hiti orðið nærri því eins hár í Reykjavík síðar í mánuðinum, 15,6 stig sem mældust þann 18. árið 2001. Þetta er eiginlega betri árangur heldur en 15,7 stigin þann 1. - tökum við haustkólnun með í reikninginn - hún virðist vera um -0,1 stig á dag. Segjum þá kannski að 15,6 stig þann 18. séu eins og 17,4 þann 1. - og séu þar með í raun miklu betri árangur. 

En - við skulum bara bíða róleg eftir 15,8 stigum í Reykjavík í október - þau koma í framtíðinni. 


Tvær fyrirstöður

Nú sitja tvær risastórar fyrirstöðuhæðir í vestanvindabeltinu. Ekki er það óalgengt en þær eru samt með öflugra móti miðað við árstíma og hefur önnur þeirra mikil áhrif hér á landi. 

w-blogg081016a

Kortið gildir síðdegis á laugardag 8. október og sýnir stóran hluta norðurhvels - norðurskaut ekki fjarri miðju og Ísland ekki langt þar neðan við. Rauðu örvarnar benda á fyrirstöðurnar, aðra við Norður-Noreg, en hina yfir Alaska. Jafnhæðarlínur eru heildregnar og gefa þær til kynna vindátt og vindstyrk. Allmikill sunnanstrengur stendur yfir Ísland langt norður í höf og sveigist svo í kringum fyrirstöðuna.

Þykktin er sýnd með lit - hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin á milli gulu og grænu litanna er við 5460 metra - gula megin markanna ríkir sumarhiti í veðrahvolfi - og jafnvel líka niður undir jörð.

Töluvert lægðardrag er fyrir vestan land og því fylgir greinilega kaldara loft - en spár gera ekki ráð fyrir því að neitt kólni að ráði - þótt kannski verði ekki beinlínis um sumarhita að ræða. 

Ámóta ástand er svo yfir Alaska - en allmikill kuldapollur er aftur á móti yfir Evrópu - þótt norðurlandabúum þyki þetta ekki sérlega kalt í október er annað að segja um ástandið í Mið-Evrópu - hiti þar töluvert undir meðallagi. 

Á kortinu má einnig sjá fellibylinn Matthew - sem sumir fjölmiðlar hér af einhverjum ástæðum kalla Matthías. Jú það getur verið gaman að því að íslenska nöfnin - ritstjóri hungurdiska stendur oft í slíku - en er guðspjallamaður sá sem enskir kalla Matthew ekki yfirleitt kallaður Matteus hér á landi? - En þetta er aukaatriði. 

Matteus á að verða að hálfgerðri afturgöngu sem hringsólar á nærri Bahamaeyjum eftir að hafa undið úr sér undan ströndum Bandaríkjanna nú um helgina - mörg orð og bólgin eiga eftir að falla um hann á samfélagsmiðlum og í fréttaskeytum - fellibyljanördin eru mörg. 

Þarna er líka stafrófsstormurinn Nicole (Nikkólína? - ekki þó sú ofan úr sveit) og á að verða á sveimi á svipuðum slóðum svo langt sem lengstu (háupplausnar-) spár sjá.

w-blogg081016b

Sé eitthvað að marka spá reiknimiðstöðvarinnar fyrir fimmtudag í næstu viku má enn sjá til hennar (hvort hún verður svo fyrir vondri trúlofun eins og nafna hennar í kvæðinu kemur í ljós). 

En á þessu korti - sem ekki má taka of hátíðlega - lifa fyrirstöðurnar báðar enn - sú við Noreg hefur teygt sig til Íslands og linast lítillega. Evrópukuldinn hefur aðeins gefið sig - sé eitthvað að marka þessa spá.

Ekki er því annað að sjá en að hlýindi haldi áfram hér á landi - þótt auðvitað kólni fljótt inni í sveitum gangi vindur niður og hjaðni skýjahula. 


Bloggfærslur 8. október 2016

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 154
  • Sl. sólarhring: 332
  • Sl. viku: 1470
  • Frá upphafi: 2349939

Annað

  • Innlit í dag: 131
  • Innlit sl. viku: 1334
  • Gestir í dag: 130
  • IP-tölur í dag: 126

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband