Fárviðrið 24. september 1973

Þessi pistill er í röð sem fjallar um fárviðri í Reykjavík - við fetum okkur smám saman aftur í tímann. Síðast var fjallað um „Engihjallaveðrið“ 16. febrúar 1981, en í þessum pistli lítum við á það sem oftast er kennt við fellibylinn Ellen og gekk yfir 23. til 24. september 1973. 

Slatti af illviðrum sem tengja má við hitabeltisfellibylji hefur komið við sögu hér á landi - og valdið einhverju tjóni - ýmist af völdum hvassviðris eða rigninga. Oftast hefur það þó verið fremur lítið. Veðrið 1973 sker sig nokkuð úr, ásamt veðrum sem gerði í september árin 1900 og 1906. 

Þessi þrjú veður eru reyndar öll náskyld þeim fjórum fárviðrum sem fjallað hefur verið um á hungurdiskum að undanförnu. Lægð við Suður-Grænland beinir köldu lofti til suðausturs út á Atlantshaf á móts við lægðarbylgju sem á uppruna sinn yfir mjög hlýjum sjó austur af ströndum Bandaríkjanna - og stefnumótið gengur upp. -

Nú er það auðvitað svo að aðeins lítill hluti „vel heppnaðra“ stefnumóta af þessu tagi veldur fárviðrum á Íslandi - oftast hitta fárviðrislægðirnar ekki á Ísland - lenda ýmist fyrir austan land - eða svo langt fyrir vestan það að ekki verður tjón af hérlendis. Margar af fárviðrislægðum þeim sem plaga nágrannalöndin eru nákvæmlega sama eðlis. 

Fellibylurinn Ellen varð til um miðjan septembermánuð í austanbylgju suðvestur af Grænhöfðaeyjum undan strönd Vestur-Afríku - rétt eins og fellibylurinn Matthew sem nú herjar syðra. Í fyrstu var þetta ósköp sakleysisleg hitabeltislægð sem þokaðist norðvestur á bóginn. Lægðin óx smátt og smátt og varð að fellibyl hinn 18. September. Ellen var fimmta lægðin, sem gefið var nafn þetta haust en olli engu tjóni á suðurslóðum.

Slide1

Myndin (af Wikipediu) sýnir slóð hitabeltislægðarinnar. Mestum styrkleika náði hún 21. september. Talið er, að þá hafi vindhraðinn orðið um 120 hnútar (1-mínútu meðalvindhraði), þegar mest var. 

Slide2

Ljósmynd af fellibylnum Ellen tekin úr geimfari NASA [Skylab 3] 20.september 1973.

Víkur nú sögunni á Norður-Atlantshaf. Á hádegi hinn 21. september var Ellen upp á sitt besta og stödd um 1500 km suður af Nýfundnalandi og hreyfðist norðaustur. Þá var kyrrstæð hæð við Asóreyjar, en lægð nálgaðist Grænland úr vestri. Um þessar mundir hafði kólnað nokkuð í Norður-Kanada og lægðin vestan við Grænland beindi þessu kalda lofti suðaustur á bóginn, allt þar til það mætti mjög hlýju og röku lofti, sem Asóreyjahæðin beindi norður milli sín og Nýfundnalands. Ellen var einmitt stödd í þessu hlýja og raka lofti. Næsta sólarhring breiddist kalda loftið austur á bóginn og komst inn á sunnanvert Grænlandshaf, en fellibylurinn hélt sínu striki til norðausturs.

Slide3

Hér má sjá veðurkort frá miðnætti aðfaranótt 23. september - eins og endurgreining japönsku veðurstofunnar telur það hafa litið út. Kortið skýrir sig að mestu sjálft. Sunnan og vestan við lægðina á Grænlandshafi streymir kalt loft yfir hlýtt Atlantshafið, en suður í hafi er víðáttumikið svæði þar sem hlýja loftið ræður ríkjum. Einnig má sjá fellibylinn, en hann var um þessar mundir um 1600 km suðvestur í hafi og er um það bil að fá á sig svip venjulegrar lægðar, sem háloftastraumar bera hratt til norðausturs. Þegar hér er komið sögu er fellibylurinn ekki lengur yfir heitum sjó, að vísu yfir Golfstraumnum, en hann er engan veginn nægilega heitur á þessum slóðum til að fellibylurinn geti haldist við á venjulegan hátt.

Slide4

Eitthvað verður því að koma honum til bjargar ef hann á ekki að deyja. Og lífgjafinn er heimskautaloftið, sem áður er minnst á. Það leitar ákveðið austur á bóginn og mætir hlýja, raka loftinu einmitt á slóðum fellibylsins. Þetta varð fárviðrinu til bjargar. Hitabeltisfellibylurinn deyr, en lægð, sem hvort eð er hefði ugglaust myndast á þessum slóðum, erfir orku hans. Háloftastraumar haga því svo, að þessi nýja lægð stefndi beint til Íslands og svo vildi til að hún var einmitt upp á sitt besta, þegar hún var næst Íslandi.

Háloftakortið hér að ofan sýnir stöðuna um hádegi 23. september (japanska endurgreiningin). Jafnhæðarlínur eru heildregnar og af þeim má ráða vindátt og vindhraða, en litir sýna þykktina. Mjög hlýtt loft fylgir fellibylnum, þykktin er meiri en 5640 metrar í kringum leifar hans. Kalda loftið fylgir eftir úr vestri. 

Eins og áður hefur verið hamrað á er þetta í grunninn mjög svipuð staða og í fárviðrunum í fyrri pistlum. Þó er sá bragðmunur að skil fyrri lægðarinnar eru ekki búin að fara yfir Ísland - eins og langalgengast er í stöðunni. Nýja lægðin er komin áður en tími er til þess. Venjulega tekur tíma að gangsetja nýja lægð - en hér kemur hún að hluta til sem tilbúinn pakki inn á svæðið - og sparar við það ef til vill tíma. Það eru þó aðeins vangaveltur ritstjórans. 

Á hádegi hinn 23. september 1973, sem var sunnudagur, var suðaustanátt 4-7 vindstig og rigning víðast á Vesturlandi, en annars var skýjað. Skil hinnar deyjandi lægðar á Grænlandshafi voru skammt vestur af landinu, en fárviðrislægðin var um 900 km suðsuðvestur af Reykjanesi og stefndi beint á landið, u. þ. b. 70 km á klukkustund. Loftvog féll talsvert á landinu öllu.

Slide5

Hér má sjá gervihnattarmynd sem tekin er um kl. 14:30. Hér er ekki um hitamynd að ræða eins og algengast er að sýna nú á dögum. - Þær voru reyndar til á þessum tíma en ljósmyndin er sú eina sem ritstjórinn fann og tekin var þennan dag. Lægðin sést reyndar mjög vel - ásamt haus og þurri rifu. Sýnilegur snúningshamur rétt að verða til. 

Klukkan 18 var orðið hvasst á öllu Suðvesturlandi, loftvogin féll nú mjög ört á vestanverðu landinu. Þegar leið á kvöldið versnaði veðrið enn og var verst milli miðnættis og klukkan 4 um nóttina á Suðvesturlandi, en heldur síðar á Vestfjörðum. Víða var fárviðri eða 12 vindstig, 16 veðurstöðvar töldu 12 vindstig, en hvorki meira né minna en 49 stöðvar töldu 9 vindstig eða meira. Þetta er með því mesta sem hér gerist. Um klukkan 3 voru skilin rétt vestur af landinu og í þann mund, sem skilin fóru yfir, gerði þrumuveður víða á Suður- og Vesturlandi. Eftir klukkan 6 fór að lægja að mun, þó að veður héldist leiðinlegt næstu daga.

Slide6

Kortið sýnir japönsku endurgreininguna á miðnætti. Hún er ekki sem verst, heildarmyndin er sannfærandi. Verulegt misræmi er þó í smáatriðum. Miðjuþrýstingur er 962 hPa - ef til vill ekki svo fjarri lagi, en vindur er greinilega of lítill yfir Íslandi. Sé kortið tekið bókstaflega segir það að þrýstingur í Keflavík sé 981 hPa, en rétt gildi er 969 hPa. Það munar 12 hPa - sem er mjög mikið. Þrýstingur fór síðan alveg niður í 963 hPa á Keflavíkurflugvelli kl. 3 - lægðin þá væntanlega nokkru dýpri. 

Þetta segir okkur enn og aftur að þótt endurgreiningar séu að ná eðli veðra og séu með kerfin nokkuð rétt staðsett er samt rétt að taka þeim með mikilli varúð. 

 Slide7

Kortið hér að ofan birtist í Þjóðviljanum. Það var Páll Bergþórsson sem teiknaði. Hér fellur allt að athugunum.  

Slide8

Vindur á Reykjavíkurflugvelli fór mest í 37,1 m/s - vel yfir fárviðrisstyrk. Ritið hér að ofan sýnir að hvassast varð rétt fyrir kl. 2 um nóttina, þá af suðaustri (140 gráður). Síðan dró nokkuð úr vindi, en en eftir kl. 4 var aftur komið fárviðri, þá af suðsuðaustri (210 gráður). Hviðusíriti var ekki í Reykjavík um þessar mundir, en fylgst var með hviðum á skífu - hæst sáust 108 hnútar, 55,6 m/s, næstmesta hviða sem frést hefur af í höfuðborginni. 

Veðurstöðin var enn á flugvellinum þegar þetta var, en var flutt á núverandi stað á Veðurstofutúni 9. nóvember. Veðurstofuhúsið var alveg nýtt - hluti starfseminnar fluttur. Á þakinu var tjörupappi og ofan á honum möl. Mölina skóf af - við lítinn fögnuð nágranna, en 6 árum síðar voru enn malarleifar í sköflum á þakinu, tjara hélt þeim saman. - Varla þarf að taka fram að þakið lak mjög mikið eftir þetta álag - og fékkst ekki viðgert fyrr en 1980. Reglulega var tjaldað yfir viðkvæman búnað í fjarskiptasal og mesta lekanum beint í stórar ruslatunnur. 

Veðrið varð langverst á Suðvestur- og Vesturlandi, en Austurland slapp furðuvel. Tjón varð mjög mikið. Margir sváfu lítið þessa nótt, enda lítill svefnfriður víða. Heldur illa kom við okkur íslendinga, sem opnuðum íslenska útvarpið í Bergen þennan morgun og heyrðum lýsingu fréttamanna á ástandinu í Breiðholti. Járnplötur lágu um allt, eyðilögðu bíla og margt annað. Strætisvagnaskýli höfðu fokið um koll og hús stórsködduð, rúin þakplötum og með brotna glugga. Enda kannski ekki furða, slíkur var veðurofsinn. 

Lægðin hafði nú lifað sínar bestu stundir. Um hádegi á mánudag 24. var hún komin að strönd Grænlands, skammt norðan Ammasalik. Á þeim slóðum veslaðist hún upp á nokkrum dögum. Hún var á mánudagsmorguninn orðin mjög víðáttumikil, náði allt vestan frá Kanada austur að Bretlandseyjum. Hún hélt því við loftstraumnum kalda frá heimskautalöndum Kanada. Þegar þetta loft kom út yfir hlýjan Atlantssjóinn mynduðust í því skúrir og jafnvel minni háttar lægðir, sem lentu síðar inn í aðallægðinni. Þessar lægðir urðu ekkert á við þá gömlu vegna þess, að þær höfðu ekki þann orkuforða, sem hitabeltisloftið var.

Skemmdirnar urðu mestar á Suður- og Vesturlandi. Þök fuku af húsum og jafnvel urðu hús ónýt. Járnplötur fuku víða og skemmdu bíla o.fl. Eftir veðrið varð þrot í landinu á þakjárni og þaksaum.

Nokkrir bátar sukku við bryggjur. Mikið tjón varð í Sandgerðishöfn og skemmdist fjöldi báta, trilla sökk í Akraneshöfn. Fimmtán litlir bátar sukku í Hafnarfjarðarhöfn og bátar skemmdust í Vogum. Stórtjón varð á bátum í Hólmavíkurhöfn.

Mjög miklar skemmdir urðu á rafmagns- og símalínum og m.a. fuku tvö möstur í Búrfellslínu I, örbylgjusendir á Búrfelli fauk og miklir erfiðleikar voru á byggingasvæði Sigölduvirkjunar, loftlínur í þéttbýli kubbuðust víða sundur í járnplötudrífu, þar á meðal 300 símalínur í Reykjavík. Selta sló víða út rafmagni og eldingar ollu einnig truflunum.

Umferðarmerki lögðust á hliðina, götuljós bognuðu og perur brotnuðu. Geysistór löndunarkrani í Straumsvík lagðist á hliðina og eyðilagðist. Skemmdir urðu miklar á trjágróðri og hey fuku víða. Neyðarástand varð um tíma í sumum úthverfum Reykjavíkur. Þakplötur fuku hundruðum eða þúsundum saman af fjölbýlishúsum í Breiðholti, þar sást kyrrstæður bíll velta hring á bílastæði, fleiri bílar ultu og skúrar fuku í heilu lagi og brotnuðu. Daginn eftir unnu hundruð manna við að byrgja opin hús. Þrettán biðskýli SVR fuku, járn fauk af litlu flugskýli á flugvellinum og af slökkvistöðinni þar. Þak Digranesskóla í Kópavogi skemmdist mikið sem og þak á starfsmannahúsi Kópavogshælis. Þak fauk í heilu lagi af hænsnabúi á Vatnsendahæð og 1500 hænur fuku út í veður og vind og drápust flestar. Járnplötur flettust af einni hlið Ísbjarnarhússins á Seltjarnarnesi og ollu tjóni þar í grennd.

Mikið tjón varð í Hafnarfirði. Plötur reif af þökum fjölda íbúðarhúsa og rúður brotnuðu, tjón varð sums staðar mikið innanhúss og fólk varð að flýja sum hús vegna kulda. Einbýlishús í byggingu á Álftanesi gereyðilagðist. Mikið foktjón varð í Vogum. „Þristurinn“, DC3 flugvél, slitnaði upp á Reykjavíkurflugvelli og skaddaðist nokkuð. Á flugvellinum fauk einnig braggi og járnplötur fuku af slökkvistöðinni þar. Mikið tjón varð í Mosfellssveit, þar eyðilögðust gróðurhús og framkvæmdir við nýbyggingar urðu illa úti, sérstaklega finnsk hús sem Viðlagatrygging var að reisa.

Járnplötur fuku og rúður brotnuðu á Hvolsvelli, útihús fuku í Kirkjulækjarkoti og Smáratúni í Fljótshlíð. Traktor fauk á Hallgeirsstöðum og þak af fjósi á Breiðabólsstað og hálft fjósþak á Heylæk. Fjárhús og hlaða fuku á Kirkjulæk. Fjárhús og hluti hlöðu fauk á Skinnum í Þykkvabæ, þak af hlöðu í Rimakoti og hluti þaks íbúðarhúss í Vatnskoti og af verkfærageymslu á bænum Borgartúni. Tjón varð allmikið vegna foks á Hvolsvelli og mikið á byggingarsvæðum. Dýrir heyvagnar fuku víða um koll á Suðurlandi. Miklar skemmdir urðu í Hvammi undir Eyjafjöllum, þar fuku m.a. bíll og hjólhýsi og skemmdust. Fjárhús og hlaða fuku á Bjólu í Djúpárhreppi.

Hesthús fauk á Skeggjastöðum í Flóa. Sjór flæddi um götur á Stokkseyri og járnplötur fuku af nokkrum húsum, sömuleiðis á Eyrarbakka. Þak fauk af litlu verslunarhúsi í Þorlákshöfn. Miklar skemmdir urðu í Ölfusi, mest í Akurgerði þar sem þak tók af fjósi, talsvert tjón varð einnig á Litla-Landi, Völlum, Egilsstöðum og Kotströnd. Hlaða fauk á Litlu-Reykjum í Hraungerðishreppi, lítið tjón varð á Selfossi. Járnplötur fuku af þremur húsum í Vestmannaeyjum og fleira fauk, aðflugsljós flugvallarins skemmdust. Gríðarlegar skemmdir urðu á gróðurhúsum í Hveragerði. Á Þúfukoti í Kjós fuku fjárhús og hlaða, svínabú fauk á bænum Þúfu, einn grís drapst, skemmdir urðu á húsum á fleiri bæjum í sveitinni.

Stór hluti þaks fauk af íbúðarhúsi í Keflavík og olli skemmdum í nágrenninu, þak losnaði af hafnarskrifstofunni og veiðarfæraskemma hrundi, plötur tók af allmörgum húsum. Í Sandgerði fauk járn af allmörgum húsum og braut rúður, m.a. fauk mikið af þaki frystihúss, bílskúr fauk í heilu lagi, hlaða og gripahús fuku á Hafurbjarnarstöðum og dreifðust allt út að Garðskagavita. Fáeinar járnplötur tók af húsi í Höfnum.

Mikið tjón varð á Akranesi, þak Sementsverksmiðjunnar skemmdist, olíugeymir lagðist að hluta til saman vegna stormþunga, gamalt fiskhús laskaðist mikið og plötur fuku af allmörgum öðrum húsum auk mikils tjóns á nýbyggingasvæði á Garðaflötum. Plötur af lögreglustöðinni skemmdu sjúkrabíl. Mjög mikið tjón varð á trjágróðri og dæmi voru um að nýlagðar þökur fykju af heilu blettunum.

Þak fauk af kjötvinnsluhúsi í Borgarnesi og nokkur önnur þök losnuðu og plötur fuku. Allmiklar skemmdir urðu á bæjum í Borgarfirði, þar var talsvert tjón nefnt í Rauðanesi, Leirulækjarseli, Bjargi, í Hítardal, á Brúarhrauni, Svarfhóli í Stafholtstungum, Hæli í Flókadal og þak fauk af vélageymslu á Hvanneyri. Hálfbyggt útihús féll í Deildartungu. Þak tók af hlöðu í Haukatungu í Hnappadal og féll hún saman að hluta, hálft þak fór af íbúðarhúsi á Heggstöðum og þak tók af fjárhúsi, helmingur af fjósþaki í Mýrdal.og hálft þak íbúðarhúss á Kolbeinsstöðum fuku. Þak fauk af gripahúsi á Grund og hlutar af fjárhúsþaki og hlöðu á Ystu-Görðum, í Syðstu-Görðum fauk þak af fjárhúsi og heyvagnar skemmdust mikið. Á Kaldárbakka fauk nýbyggt hesthús út um víðan völl og á Syðri-Rauðamel urðu skaðar á fjárhúsþaki og íbúðarhúsi. Í Miklaholtshreppi varð foktjón á Fáskrúðarbakka og hluti af hlöðuþaki fauk á Lækjarmótum.

Geymsluhús fauk á Fróðá í Fróðárhreppi og þak af hesthúsi og hlöðu í nágrenninu, nokkuð var um plötufok í Ólafsvík.

Talsvert tjón varð á Ísafirði þegar plötur fuku af húsum, rúður brotnuðu og stór uppsláttur á verkstæðisbyggingu eyðilagðist. Nýhlaðið hús í Hnífsdal hrundi til grunna og járnplötur tók af tveimur íbúðarhúsum. Járnplata lenti í hjónarúmi í nágrannahúsi. Þak fauk af nýbyggðu verslunarhúsi í Bolungarvík og eitthvað af járni af fleiri húsum í þorpinu. Plötur fuku af húsum á Þingeyri, Bíldudal og Patreksfirði en ekki var um stórfellt tjón að ræða. Fjárhús fuku þó í grennd við Bíldudal. Hús fauk í Kvígindisdal og hlaða fauk á Hóli í Tálknafirði. Bátar skemmdust í Örlygshöfn og Hænuvík.

Allt járn fauk af íbúðarhúsi í Búðardal og skemmdir urðu á fleiri húsum, járnfok varð víða á bæjum í grenndinni. Á Melbóli í Reykhólasveit fauk vélageymsla af grunni og eyðilagðist, skemmdir urðu víða um sveitina. Á Kirkjubóli í Langadal í Djúpi fauk nær allt járn af nýlegu íbúðarhúsi og nýbyggður hjallur gereyðilagðist, þök fuku af húsum í Mjóafirði og þak fauk af fjárhúsi á Rauðamýri í Nauteyrarhreppi, á þessum slóðum varð tjónið í suðvestanáttinni í kjölfar lægðarinnar. Á Melum í Árneshreppi fauk þak af hlöðu með viðum og öllu og þak af fjósi. Gafl sleit úr fjósi á Finnbogastöðum, gripahús lagðist saman í Djúpavík.

Mikið tjón varð í Langadal og Svartárdal í Húnavatnssýslu. Þak fauk í heilu lagi í Hvammi, útihús skemmdust á Strjúgsstöðum, Brennuvaði, Glaumbæ og Fremstagili. Hluti af fjárhúsþaki fauk á Hvammi í Vatnsdal og einnig á Brekku í Þingi. Járnplötur fuku að nokkru af tveimur húsum á Blönduósi. Jeppi fauk á Reykjabraut og bifreið fauk hjá gangnamönnum á Auðkúluheiði.


Bloggfærslur 6. október 2016

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 41
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 532
  • Frá upphafi: 2343294

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 484
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband